Tekið er við pöntunum í síma 450-9000 og í netfanginu fisherman@fisherman.is

Ævintýri í 20 ár

Fisherman fagnar 20 ára afmæli 30. desember 2020

Í myndbandinu má sjá svipmyndir frá fyrstu tuttugu starfsárum Fisherman og hluta af því starfsfólki sem hefur fylgt okkur í skemmri og lengri tíma.

 

Ævintýri í 20 ár 

Þann 30.desember 2000 á Suðureyri var fyrirtækið VEG-gisting stofnað af þeim Elíasi Guðmundssyni, Guðmundi Svavarssyni og Val Richter. Tilgangurinn var að endurbyggja gamalt hús sem til stóð að rífa niður. Húsið fékkst fyrir 50 þúsund krónur og unnið var að endurbyggingu hússins sem áhugamál með annari vinnu. Elías og Jóhanna Þorvarðardóttir tóku yfir eign Guðmundar og Vals í félaginu þegar endurbætur voru langt komnar næsta vor.  

Gistiheimilið VEG-gisting opnar

Um vorið 2001 var hægt að opna hluta af húsinu eftir endurbyggingu, fjögur herbergi voru tilbúin og lítill eldhúskrókur til að bera fram morgunmat. Ferðaþjónusta var eitthvað sem var varla til í orðaforða okkar á þessum tíma en 256 gestir gistu hjá okkur fyrsta sumarið. Við vissum ekkert hvað við vorum að gera og ekki voru margir ferðamenn að flækjast um Vestfirði á þessum tíma. Eitthvað kitlaði að reyna að læra um hvað þetta snerist og hófst því vinna við að reyna að selja gestum einhverjar hugmyndir til að villast í litla þorpið og gista þar.

Gistnóttum ferðalanga tvöfölduðust á milli ára

Nafnið VEG-gisting var einfalt nafn, byggt á upphafsstöfum stofnenda svo tímabært var að taka það til endurskoðunar. Nafninu á fyrirtækinu var breytt og var nýtt nafn Hvíldarklettur tekið upp. Hvíldarklettur er klettabelti við Búrfell þar sem göngumenn hvíldu sig alltaf á göngu á milli Ísafjarðar og Suðureyrar. Við Hvíldarklett er varðan Hlaðka sem félagið notaði síðar sem nafn á dótturfélag sitt.

Gestum fjölgaði um helming þetta árið og ferðaskrifstofur byrjuðu að bóka gistingu. Enn var þetta litla gistihús áhugamál en tvöföldun á gestafjölda á einu ári gaf vísbendingu um að það gæti verið eitthvað skemmtilegt framundan.

Með vorinu voru endurbætur kláraðar á húsinum og var þá búið að bæta þremur herbergjum við ásamt veitingarými fyrir morgunmat. Elías og Jóhanna voru enn í fullri vinnu á öðrum stöðum og fengu því hjálp hjá vinum og fjölskyldu til að taka á móti gestum. Einn þeirra, hann Guðbjartur kom í heimsókn og fékk hann það hlutverk að bíða eftir gestum og afhenda þeim herbergislyklana. Guðbjartur fékk ávítur frá gestum að eiga ekki neitt að borða svo hann gekk í málið. Hann fór á höfnina og fékk steinbít hjá Jóa Bjarna frænda sínum. Hann eldaði steinbítinn í rjóma- og koníakssósu og þá var ekki aftur snúið. Allir sem komu á eftir þessum gestum gátu núna fengið að borða í litlu veitingarými sam var með 16 stólum við fjögur lítil borð.


Steinbítur í rjóma- og koníakssósu veldur því að barist er um sætin á veitingastaðnum 

Sumarið 2004 var virkilega gott sumar. Það var oftar en ekki fullt í gistingu og á kvöldin var barátta um þessa 16 stóla í veitingarýminu. Ef veðrið var gott þá var hægt að bjóða fólki að sitja úti líka. Matseðilinn var mjög einfaldur, fiskur beint af bryggjuni og það líkaði ferðafólki virkilega vel. Elías eldaði og Jóhanna þjónaði til borðs. Bæði voru enn í fullri vinnu á daginn svo þessi kvöldvinna var hálfgerð geðveiki ofan í allt annað. Vinir og vandamenn komu og léttu undir með aðstoð og allt fór vel. Ferðagestir voru áhugasamir um afþreyingu í þorpinu svo þá var byrjað að tengja þá við sjómenn í þorpinu. Sjómennirnir byrjuðu að fara með gesti í veiðiferðir sem síðar þróuðust með miklum látum. Einnig hófst samstarf við fiskvinnsluna Íslandssögu um heimsóknir í fiskvinnsluna.

Gamla kaupfélagshúsið keypt 

Nú var komið að því að hrökkva eða stökkva. Það var ekki lengur vinnufriður í dagvinnunni svo Elías sagði upp sínu starfi og veðjaði á framtíð ferðaþjónustunnar. Fyrirtækið festi kaup á gamla kaupfélagshúsinu sem er beint á móti gistihúsinu og einnig var næsta hús sem áður hýsti verslun og síðar skrifstofu Suðureyrarhrepps fengið undir reksturinn. Eignir í þorpinu kostuðu mjög lítið enda illa farnar. Mikil vinna var framundan að endurbyggja þessar eignir. Í lok árs 2005 var lítilli verslun í þorpinu bætt við reksturinn til að ná endum saman. Tekjur vorum ekki miklar svo það þurfti að sinna mörgu til að réttlæta reksturinn.
Í lok árs var fígúran Bobby Fisherman kynnt til sögunnar. Bobby varð til útfrá ákveðnum húmor sem tengdist umfjöllun um skákmanninn Bobby Fisher sem var mikið í umræðu á þessum tíma. Teiknimyndafígúran Bobby var í áberandi og sterkum litum, enda þurfti að hrópa hátt til að láta vita af áfangastaðnum Suðureyri sem varla telst vera í alfaraleið. Á þessum tíma var ekki einu sinni merktur vegur til Suðureyrar í erlendum ferðahandbókum.

Viðhorfsrannsókn á meðal erlendra gesta gefur mikilvæga sýn á framtíðarmöguleika Fisherman 

Um sumarið 2006 voru nokkur herbergi tilbúin í útleigu í gamla kaupfélagshúsinu og búið var að breyta gömlu skrifstofu Suðureyrarhrepps í veitingahúsið Talisman. Nafnið kom frá merkilegri sögu um skipsskaða í Súgandafirði sem var við hæfi að halda á lofti. Steinbíturinn í rjóma- og koníakssósunni var ennþá á matseðlinum og í fjölda ára var þessi réttur sem "óvart" var útbúinn, mest seldi diskurinn. Veitngahúsið fékk strax góðar viðtökur og fiskur úr sjávarþorpinu var aðalsmerkið. Á þessum tíma var gerð merkileg og ýtarleg markaðsrannsókn meðal innlendra og erlendra viðskiptavina. Þar kom í ljós mjög skýr niðurstaða af hverju fólk var að koma og hvað vakti svo sterk hughrif. Það var ekki fyrirtækið, heldur þorpið. Litla sjávarþorpið, fólkið og atvinnumenningin sem þar er. Erlendir gestir kunnu virkilega að meta nálægðina við vinnandi fólk í litlu sjávarþorpi, fólk var að kynnast atvinnumenningu Íslendinga frá fyrstu hendi.  Næstu skref voru því að vinna meira með þessar óskir viðskiptavina.

Sjóstangaveiði þýskra veiðimanna kallar á mikla fjárfestingu, þrek og þor 

Fyrirtækinu býðst að taka við samningi um þjónustu við þýska veiðimenn sem vildu koma til að veiða á sjóstöng. Verkefnið var mun stærra en það leit út fyrir að vera og á vormánuðum 2007 komu fyrstu veiðimennirnir til að veiða. Fyrirtækið keypti 22 sérsmíðaða báta og annað eins af húsum á Flateyri og á Suðureyri. Allt var gert á met tíma til að taka á móti þessum gestum. Fjöldi gesta var mikill og seldi fyrirtækið 12.000 gistinætur um sumarið. Fjárfestingin var gerð með stuðningi Byggðastofnunar, Sparisjóðs Bolungarvíkur, Íslandsbanka og þar að auki fjármögnuðu tvær þýskar ferðaskrifstofur part af uppbyggingunni. Mikið var undir og verkefnið tók á í alla staði. Ekki var til löggjöf um veiðar ferðamanna og einnig þurfti að breyta lögum um áhafnir báta og skipa. Mikill meðbyr og mótbyr var í garð verkefnisins. Landsamband útgerðamanna LÍÚ, Landhelgisgæslan, Sjómannasambandið og fjöldi annara hagsmunaaðila reyndu mikið til að stöðva verkefnið. Tveir ráðherrar þeir Sturla Böðvarsson og Einar Kristinn Guðfinnson leiddu verkefnið í gegnum alþingi til að sátt myndi skapast um þessa nýju atvinnugrein á Íslandi. Ný lög og reglur litu dagsins ljós og útgerð þessa báta fékk frið. Á þessum tíma var þetta verkefni ígildi stóriðju í ferðaþjónustu og mikið var undir fyrir lítil samfélög víða um Vestfirði.

Bankahrunið veldur því að fyrirtækið rær lífróður

Eftir erfitt fyrsta ár með útgerð 22 sjóstangveiðibáta þá kom ágætis sumar og hlutir byrjaðir að slípast til. Þessar veiðiferðir voru greinilega vara sem var að falla vel í ferðamenn. Einn gestur fékk árinu á undan 175kg lúðu á sjóstöng og það gerði þessar ferðir næstum því uppseldar langt fram í tímann. En svo kom bankahrunið í lok vertíðar. Öll viðskiptin og lán voru í Evrum sem höfðu slæm áhrif á efnahagsreikning fyrirtækisins. Tók þá við enn einn slagurinn og núna var lífróður í heilan vetur að halda fyrirtækinu á lífi. Fyrirtækið átti fisk í frystiklefa sem ætlaður var fyrir ferðamenn til að taka með heim en það var ekki hægt að vera með milljónir bundið í frystiklefa á þessum tíma. Hófst þá sala á fiski á netinu og kláraðist lagerinn fljótt.  Starfsfólkið keypti þar af leiðir meiri fiski sem seldist líka á netinu. Svona var hægt að halda lífi í rekstrinum yfir veturinn. Verkefnið fékk fjölda verðlauna og viðurkenninga og helst má þar nefna Scandinavian travel awards.

Rekstrinum skipt upp í tvö félög 

Fyrirtækið var mjög illa farið í upphafi árs 2009 og að ósk lánveitanda var fyrirtækinu skipt upp í tvö félög. Annars vegar í Hvíldarklett sem í dag er Iceland Pro Fishing og átti að sjá um þjónustu við veiðimenn og í Fisherman sem myndi sjá um hótel, veitingar og verslun. Þýskir samstarfsmenn yfirtóku þjónustu við veiðimenn og er það félag enn rekið á sömu kennitölu og var á VEG-gisingu í upphafi. Elías og Jóhanna yfirtóku hótel, veitingar og verslun sem þau höfðu byggt upp áður en verkefnið tengt veiðimönnum kom til. Litla gistihúsið var orðið að þriggja stjörnu hóteli á þessum tímamótum.

1.júlí 2009 uðru kaflaskilin og uppgefin hjón tóku sér frí tímabundið með því að leigja reksturinn á Suðureyri frá sér og einbeita sér að námi á Akureyri. Fjarvera frá rekstrinum var mikilvæg á þessum tíma til að ná heilsu eftir átök síðustu tveggja ára. Það var samt hægt að sinna fasteignaviðhaldi enda var það barnaleikur miðað við það sem gengið hafði á.

Veturinn gekk vel en svo byrjaði Eyjafjallajökull að gjósa. Eitt áfallið í viðbót. Leigjandinn af rekstrinum var búinn að standa sig vel en lenti að sjálfsögðu í vanda með reksturinn og þá var ekkert annað í stöðunni en laga það sem hægt var að laga. Árið 2010 var mjög slæmt rekstrarlega séð en svo fóru ferðamenn að koma aftur.

Enduruppbygging hefst við Rómarstíg  

Árið 2011 var notað til að styrkja reksturinn og að byggja aftur upp þá ferðaþjónustu sem áður var til. Það gekk mjög vel að koma lífi í reksturinn og aftur var það fiskurinn sem dró ferðamenn í litla þorpið. Þetta ár hófst vinna við að hanna endurbyggingu á upphaflegu byggðinni á Suðureyri við Rómarstíg. Ferðamenn voru farnir að streyma aftur vestur og þá var hægt að halda áfram með uppbyggingu á rekstrinum. Endurskilgreina þurfti reksturinn í takt við breytta tíma.

Sælkeraferð Fisherman sett á laggirnar þar sem gestir fræðast um fiskveiðar, vinnslu og lífið í litlu sjávarþorpi

Sumarið 2012 hefst vinna við að þróa lengri og betri ferð um þorpið í samstarfi við fiskvinnsluna Íslandssögu. Gestir vildu vita meira um atvinnumenninguna í þorpinu svo það var ekkert annað hægt að gera en að klæða fólk í sloppa og sýna þeim alvöru fiskvinnslu, gefa þeim að smakka framleiðsluvörur heimamanna og segja þeim sögur úr þorpinu. Á þessum tíma komu menntaðir íslenskir leikarar til vinnu til að þróa skemmtilegt handrit sem var svo grunnur að ferðinni Seafood trail sem leiddi fyrirtækið áfram næstu árin. Þetta sumar gerði fyrirtækið styrktarsamning við einleikjahátíðina Act alone um samstarf til að lengja sumarið. Hátíðin var aðra helgina í ágúst en þá var vertíðin á Vestfjörðunum vanalega búin. Hátíðin gekk með eindæmum vel og var vísir af löngu og farsælu samstarfi.

Kaffihús, gestamóttaka og fiskiskóli Fisherman styrkja stoðir fyrirtækisins sem ferðaþjónustufyrirtæki 

Í byrjun sumar opnaði fyrirtækið kaffihús og gestamóttöku í gamla kaupfélagshúsinu, beint á móti veitingnahúsinu. Bakatil á kaffihúsinu var lítill salur sem kallaður var Fiskiskóli Fisherman. Fiskiskólinn var mikilvægur partur af uppbyggingu á ferðinni Seafood trail sem var að byggjast upp. 

Mikil fjölgun ferðamanna með komu skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar

Mikil vinna er lögð í uppbyggingu á dagsferðinni Seafood trail. Fyrirtækið keypti  50 manna rútur til að sækja gesti úr skemmtiferðaskipum sem komu til Ísafjarðar. Skemmtiferðaskipum var að fjölga ört og þar með var kominn nýr markaður til að sækja á. Fjárfestingafélagið Hvetjandi hf kemur tímabundið inn í hluthafahópinn til að aðstoða við frekari uppbyggingu. Á þessum tíma var hægt að ljúka við endurbyggingu á því húsnæði sem fyrirtækið starfaði í og fyrst núna var hægt að segja að markmiðum um gæða gistingu væri náð. Ánægja gesta jókst enn frekar og fleiri og fleiri komu í heimsókn.

Nýir fjárfestar koma inn og nýtt vörumerki kynnt til leiks 

Spennandi verkefni voru framundan við uppbyggingu á dagsferðum tengt fjölgun skemmtiferðaskipa og þá kom nýr fjárfestir að félaginu, Solemio ehf sem er í eigu Eggerts Dagbjartssonar og Bjargar Bergsveinsdóttur. Með því að fá nýja eigendur með í hluthafahópinn þá náði fyrirtækið að vaxa mun hraðar og takast á við spennandi verkefni á næstu árum. Verslunin á Suðureyri var seld til að skerpa á rekstrinum og fyrirtækið var skilgreint sem upplifunarfyrirtæki með fisk. Ný ásýnd með nýju vörumerki var kynnt á 15 ára afmæli fyrirtækisins. Á þessum tíma er Elías í MBA námi þar sem stefna fyrirtækisins til næstu ára var unnin mjög ítarlega í náminu og sem lokaverkefni.

Fyrsta vörulína Fisherman lítur dagsins ljós

Fyrirtækið bætti við rútum til að fjölga gestum í dagsferðir. Um 4.000 gestir fóru í dagsferðir sumarið 2016. Veitingahúsið var endurnýjað, bætt var við sjö auka herbergjum og allar byggingar voru settar í nýtt útlit í takt við nýja ásýnd fyrirtækisins. Gamla teikninmyndafígúran Bobby Fisherman var búinn að sinna sínu hlutverki í tíu ár og tími til komin að nota faglegra útlit og heildstæðari hönnun á vörum og þjónustu fyrirtækisins. Reynslan var orðin meiri eftir 15 ár í ferðaþjónustu svo breytingin var tímabær. Stefnumótun fyrirtækisins byggði á MBA lokaverkefninu og partur af því var Fisherman vörulína fyrir ferðamenn. Um sumarið komu því fyrstu vörur á markað undir nafninu Fisherman.

Fyrstu vörur Fisherman fara í sölu í Hagkaup og Fiskisjoppa Fisherman á Hagamel í Reykjavík opnar

Í upphafi árs hófst vinna við að finna nýjum vörum undir merki Fisherman stað á markaði. Gerður var samningur við Hagkaup um sölu á fjölbreyttu úrvali sjávarfangs. Innréttað var framleiðlsueldhús við Hagamel í Vesturbæ Reykjavíkur til að framleiða ferskar vörur í verslanir. Til að nýta húsnæðið betur var Fiskisjoppa Fisherman opnuð.  Bæði Fiskisjoppan og vörur Fisherman í Hagkaup fengu strax góðar viðtökur.

Mikil vinna fór í vöruþróun á mjög fjölbreyttu úrvali af vörum og veitingum. Nokkrum mánuðum síðar voru vörurnar það vinsælar að framleiðslueldhúsið á Hagamel var strax allt of lítið. Þegar hér er komið við sögu þá er fyrirtækið komið með 6 rútur og allt að 500 manns á dag sem njóta dagsferða hjá fyrirtækinu.

Fisherman byggir upp fyrsta flokks framleiðslueldhús fyrir vestan til að anna aukinni eftirspurn í fiskivörur Fisherman

Í upphafi árs 2018 var hafist handa við að byggja fyrsta flokks framleiðslueldhús á Suðureyri. Framleiðslueldhúsið sinnir bæði ferðaþjónustunni þar ásamt framleiðslu fyrir verslanir. Á þessum tíma bætist Bónus við í hóp viðskiptavina og þá fara fyrirtæki að leita til okkar um kaup á fiskréttum fyrir stóreldhúsin. Framleiðslan fer á flug í nýju húsnæði. Á sama tíma byggir fyrirtækið tvö hús tengt ferðaþjónustu við Rómarstíg á Suðureyri. Fyrirtækið eignaðist og endurbyggði eitt af elstu húsum Suðureyrar, Eyrargötu 7. Þar er nú starfrækt þjónustuver Fisherman. Vöxtur fyrirtækisins er því enn á mikilli siglingu þegar hér er komið við sögu.

Kaup á fyrirtækjum í fiskframleiðslu og dreifingu styrkja Fisherman sem heildsölufyrirtæki á fiski 

Til að verða við aukinni eftirspurn fyrirtækja að vörum fyrirtækisins þá festi Fisherman kaup á heildsölufyrirtækinu Merlo ehf en það fyrirtæki hafði lengi verið að veita góða þjónustu til stóreldhúsa. Með þessum kaupum var Fisherman komið með mun betri aðstöðu og betri dreifinu á höfuðborgarsvæðinu. Mikil vinna fór í að sameina tvö fyrirtæki í eitt og að þróa réttar lausnir fyrir markaðinn sem var að stækka mjög mikið. Þessi þróun var mjög krefjandi og skemmtileg. Fiskisjoppa Fisherman var komin í 2. sæti yfir bestu veitingahús Reykjavíkur og vinsældir vörumerkisins Fisherman voru sífellt að aukast.

Við gjaldþrot Sjófisks í upphafi árs bættust fyrrverandi starfsmenn Sjófisks í hóp starfsmanna Fisherman. Þar með tók fyrirtæki enn sterkari stöðu til að veita stóreldhúsum góða þjónustu. Mánuði síðar skall á heimsfaraldur og flest stóreldhús og veitingahús loka. Um 15 þúsund gestir voru búinir að bóka dagsferðir eða gistingu hjá fyrirtækinu þegar Covid skall á. Fyrir Covid var fyrirtækið að stefna í sitt besta ár frá upphafi. Þriðja kreppan frá stofnun fyrirtækisins var raunveruleiki og því mikilvægt að endurskipuleggja reksturinn aftur í takt við breytta tíma. Fiskisjoppu Fisherman var lokað strax og ferðaþjónusta á Suðureyri var í uppnámi. Um vorið kaupir Fisherman eignir af Ópal sjávarfangi ehf og tók þar við vinnslu á lax, silung og bleikju. Reykt, grafið, frosið og ferskt. Vöruframboð fyrirtækisins var því orðið virkilega fjölbreytt. Til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs þá var mikilvægt að setja nýjan fókus í sölustarfið. Útflutningur á vörum frá Fisherman fór á flug og erlendar netverslanir hafa verið að auka viðskipti við fyrirtækið umfram samdrátt í þjónustu við stóreldhúsin. Með aðlögunarhæfni einstarka starfsmanna sem starfa hjá Fisherman hefur fyrirtækið náð að fjölga viðskiptavinum og auka tekjur þrátt fyrir mjög krefjandi aðstæður.

Ný sókn á erlend mið

Í þessu 20 ára ævintýri hafa á þriðja hundrað starfsmenn komið og farið í gegnum fyrirtækið. Flestir að sinna tímabundnum sumarstörfum í ferðaþjónustu meðan aðrir eiga sögu um langtíma störf hjá fyrirtækinu. Það sem stendur uppúr eftir öll þessi ár en endalaust þakklæti til allra þeirra sem hafa unnið með eigendum við að láta þetta ævintýri ganga upp. Allir hafa lagt mikið að mörkum og fyrirtækið er ekkert annað en starfsfólk þess á hverjum tíma. Um 55 starfsmenn störfuðu hjá fyrirtækinu í upphafi heimsfaraldurs en starfsmenn eru um 30 í dag. Fyrirtækið mun rísa aftur í lok heimsfaraldur með stæl eins og þessum frábæra hóp starfsmanna er einum lagið líkt.

 

Search