Fyrir 2-3
Uppskrift
Það sem þú þarft að hafa
600 gr gellur
100 gr hveiti
5 gr hvítlaukssalt
5 gr aromat
5 gr hvítur pipar
50 gr smjör
200 gr laukur skorinn í smáa bita
10 gr olía til að steikja
Steinselja til að skreyta og svo er hún hentug til að vinna gegn hvítlaukslykt af matargestum ;-)
Meðlæti
Fisherman mælir með soðnum kartöflum, salati og Tartarsósu frá Fisherman.
Hvernig
Blandið öllum þurrefnum saman í skál og hrærið vel. Gott er að slá einu nettu höggi á gellurnar með kjöthamri til að sprengja vöðvann og losa um óþarfa vökva úr gellunni. Ekki nauðsynlegt en betra. Hitið stóra steikarpönnu á mikinn hita og setið olíu á pönnuna. Ekki setja smjörið strax. Veltið gellunum upp úr hveitiblöndunni og raðið þeim öllum á pönnuna. Steikið í 2-3 mín og þá má byrja að setja smjörið og laukinn út á pönnuna. Snúið næst gellunum og klárið að steikja þær í 2-3 mín í viðbót eða þar til þær verða stökkar, smjörgular og fallegar. Takið næst pönnuna af hitanum setjið steinseljuna yfir og berið matinn fram á pönnunni.